Bréf frá Guðmundi D. Haraldssyni félagsmanni í Öldu:

Það er ýmislegt sem þarf og mun breytast á Íslandi á komandi árum. Eitt sem þarf að breytast er hinn langi vinnudagur sem við vinnum hér á landi. Við vinnum mun meira en fólk gerir á öðrum Norðurlöndum og líka meira en fólk í Evrópu (t.d. í Þýskalandi og Frakklandi). Það er mikilvægt að bæta úr þessu, til að fólk geti átt meiri tíma með fjölskyldunni og til að fólk geti orðið virkara í lýðræðinu.

Við þurfum að stytta vinnudaginn. Það er ekki vinsælt umræðuefni hérna á skerinu, en eitthvað sem mjög margir vilja samt. Bæði finn ég það þegar ég tala við fólk, en svo er líka til vönduð könnun sem var gerð fyrir nokkrum árum sem sýnir það sama.

Ég er að leitast eftir samvinnu við fólk sem er tilbúið í að a) koma þessu málefni í umræðuna og b) þrýsta á verkalýðsfélögin í landinu (þessi litlu, ekki ASÍ). Ég er með vissar hugmyndir um hvernig má gera þetta, t.d. með því að skrifa í blöð, hafa beint samband við verkalýðsfélög og þvíumlíkt. Ég er tilbúinn til að skýra hugmyndir mínar í frekari smáatriðum í einkasamtölum.

Samvinnan myndi felast í skipulagningu, yfirlestri á texta hvers annars og vitanlega að skiptast á hugmyndum og upplýsingum.

Nú þegar er ég búinn að skrifa tvær greinar í blöðin og er með eina lengri grein í vinnslu. Í þessum greinum útskýri ég hvað málið snýst um og geri grein fyrir röksemdum mínum fyrir styttingunni. Fyrrnefndu greinarnar má nálgast á vefnum, hér: http://gdh.blog.is/blog/gdh/entry/1126373/ og hér: http://www.visir.is/vinna-islendingar-of-mikid-/article/2010453351138 .

Ef þú hefur áhuga, hafðu þá samband. Netfangið er gudm.d.haralds@gmail.com og símanúmerið er 896-8867.

Guðmundur.