Aðalfundur Lýðræðisfélagsins Öldu
15/10/2011

Fundur var settur kl 13:00. Björn Þorsteinsson bauð fólk velkomið og lagði til að Kristinn Már tæki við fundarstjórn, það var samþykkt. Ritari fundarins var Hjalti Hrafn.

Kristinn kynnti dagskrá fundarins.

Fyrsti liður var skýrsla stjórnar, Sólveig Alda kynnti skýrsluna sem var almennt vel tekið.

Annar liður var framlagning reikninga. Kristinn kynnti ástæður þess að félagið hefur hvorki kennitölu né reikning og ástæður þess að dagskrárliðurinn að fara yfir reikninga fellur niður.

Kristinn kynnti þriðja lið, umræður um ársskýrslu og reikninga. Geir Guðmundsson benti á að það þyrfti ekki að vera formaður í félagi til þess að félagið geti fengið kennitölu heldur aðeins tengiliður. Katrín hrósaði Öldu fyrir starf sitt við tillögur til stjórnlagaráðs og sagði frá því að það starf hefði haft umtalsverð áhrif. Einar fagnaði því hvað Alda hefur verið virkt félag seinasta árið en þótti leitt að hafa ekki tekið meiri þátt sjálfur. Dóra sagði að ekki ætti að hafa samviskubit yfir dræmri þátttöku fólk gæti tekið þátt í félaginu á eigin forsendum. Björn bætti því við að við viljum þó auka þátttöku og virkni félagsmanna og hafa starfið á breiðari grundvelli. Kristinn sagði frá því að það er búið að stofna tvo málefnahópa að frumkvæði félagsmanna hóp um sjálfbærniþorp og styttri vinnutíma. Sólveig Alda lýsti því nánar hvernig þessir tveir málefnahópar voru stofnaðir af áhugasömum félagsmönnum.

Kristinn kynnti fjórða dagskrárlið, lagabreytingar. Gert var stutt hlé fyrir fundarmenn til að lesa yfir breytingartillögurnar og greinagerð um þær.

Fyrsta tillaga um nafnabreytingu var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Önnur tillaga um slembivalda stjórnarmeðlimi. Katrín gerði athugasemd við orðalag. Kristinn lagði fram breytingartillögu á orðalagi sem var samþykkt einróma.

Breytingartillaga með nýju orðalagi var svo samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Þriðja tillaga um stærð stjórnar. Sigríður spurði hvers vegna það væru engin ákvæði um varamenn fyrir stjórnarmeðlimi, Kristinn útskýrði tillögur sem átti eftir að samþykja um atkvæðisrétt félagsmanna á stjórnarfundum sem gerir varamenn óþarfa. Kristín benti á það að minni stjórn getur leitt til þess að færri stjórnarmeðlimir mæti á fundi. Styrmir spurði hvers vegna almennir félagsmenn hafa jafn mikið vald og kjörnir stjórnarmenn og benti á að það gæti talist óeðlilegt. Kristinn svaraði spurningunni og útskýrði jafnframt ákvæði um neyðarhemil. Sigríður lýsti yfir stuðning við róttækni í verki í lögum félagsins. Einar fagnaði því að félagið geri tilraunir í félagsstarfinu. Björn þakkaði fyrir umræðuna og benti á að félagið eigi að vinna sjálft eftir sínum eigin hugsjónum. Þriðja tillaga var svo samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fjórða tillaga um stjórnarkjör var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Fimmta tillaga um það ef stjórnarmaður hættir. Sigríður spurði hvað stjórnarmenn sitji í langan tíma og hvað nýir stjórnarmenn kjörnir á félagafundi hafi umboð til langs tíma. Katrín kom með tillögu um orðalagsbreytingu. Breytingartillagan var samþykkt einróma, og breytt tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Sjötta tillaga varðandi breytingu á 6. gr. laga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Sjöunda tillaga um að meirihluti stjórnarmanna þurfi að mæta á stjórnarfundi til að fundurinn sé löglegur. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Áttunda tillaga um að almennir félagsmenn hafi atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Níunda tillaga um kjör fundarstjóra, og kjörnefndir. Katrín lýsti því yfir að tillögurnar hljómi vel. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tíunda tillaga um hvaða kjörskrá gildir á aðalfundi. Sigríður sagði frá áhyggjum af því að tillagan sé ekki nægilega skýr og lagði til breytingu á orðalagi. Björn spurði um hvað átt sé við með orðinu „fulltrúi” og lagði til breytingu á orðalagi. Katrín lagði til að það sé útskýrt hvernig slembival fari fram. Breytingartillögurnar frá Sigríði og Birni voru samþykktar og tillagan í heild var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ellefta tillaga um neyðarhemil. Upp kom umræða um tímamörk og breytingartillaga lögð fram um að boða skuli til félagafundar innan tveggja vikna frá nýtingu neyðarhemils. Breytingar voru samþykktar einróma og tillagan í heild var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tólfta tillaga um lagabreytingartillögur fyrir aðalfund. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Þrettánda tillaga um framboð til stjórnar. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tillaga kom fram frá Þórarni um ákvæði varðandi það hvað gerist ef of fáir bjóða sig fram til stjórnar. Kristinn benti á að það væri ekki hægt að taka á því máli núna því að til þess þyrfti nýja lagabreytingartillögu sem hefði þurft að berast fyrir setningu aðalfundar til að vera lögleg. Það þarf því að taka á þessu máli á næsta aðalfundi.

Kristinn kynnti fimmta lið sem var umræður og afgreiðsla ályktana félagsins, hann sagði frá því að engar ályktanir hefðu borist fundinum og hann gaf orðið laust. Sólveig Alda sagðist telja það eðlilegt að ályktanir komi frekar fram í málefnahópunum. Sigríður benti á hversu óviðeigandi það er að félag um sjálfbærni bjóði upp á kaffi úr einnota bollum. Dóra sagði frá skipulagningu grasrótarmiðstöðvarinnar á endurvinnslu og öðru sem víkur að því. Það kom upp tillaga um að stefna félagsins yrði lesin upp á fundinum. Sólveig Alda benti á að það tæki langan tíma og að stefnan sé aðgengileg á heimasíðu félagsins og fólk geti kynnt sér hana og mætt í málefnahópa og því þyrfti ekki að lesa stefnuna á fundinum.

Kristinn kynnti sjötta lið lið, kosningu stjórnar. Fundinum bárust 9 framboð, frambjóðendur kynntu sig og Kristinn lagði það til að frambjóðendur teldust sjálfkjörnir og formlegri kosningu yrði því sleppt. Ný stjórn var kjörin og boðin velkomin til starfa með lófataki.

Kristinn kynnti seinasta liðinn, önnur mál. Lagt var til að menn drifu sig niður á lækjartorg og tækju þátt í mótmælum gegn auðvaldinu. Það var samþykkt einróma og fundi var slitið klukkan 14:50.

Á fundinum ríkti góður andi og mikil samstaða, allar tillögur voru samþykktar einróma með öllum greiddum atkvæðum.

2 Thoughts to “Fundargerð – Aðalfundur 15. okt. 2011”

 1. Ólafur B.J.

  Hvað gerir Lýðræðisfélagið ALDA annað en að halda fundi og skrifa fundargerðir?

  Spyr sem sem hvorki veit né skilur…

  1. Kristinn Már Ársælsson

   Sæll Ólafur,

   Góð spurning og mikilvæg. Stór hluti af starfi Öldu felst í opnum fundum þar sem félagsmenn koma saman og finna lausnir á þeim lýðræðis- og sjálfbærnivanda sem við stöndum frammi fyrir. Það lá alltaf fyrir að kjarninn í starfi fyrsta árs yrði hugmyndavinna en að á öðru ári gætum við farið að vinna meira út á við. Raunverulega svarið er að félagið gerir það sem félagsmenn telja best hverju sinni til þess að auka og dýpka lýðræði og sjálfbærni. Nú nýverið voru stofnaðir tveir hópar að frumkvæði félagsmanna, annars vegar um styttingu vinnutíma og hins vegar um sjálfbærniþorp. Hópurinn um styttingu vinnutíma ætlar að þrýsta á verkalýðshreyfinguna og aðra aðila um að berjast fyrir styttri vinnutíma. Hópurinn um sjálfbærniþorp mun vinna áfram með hugmyndina og reyna að koma henni í framkvæmd. Aðrir hópar munu á næstunni leita leiða við að koma sjónarmiðum Öldu á framfæri og í framkvæmd. Svo eru fyrirhugaðir borgarafundir/borgaraþing. Einnig eru væntanleg önnur verkefni í samstarfi bæði innanlands og erlendis sem hafa það markmið að miðla upplýsingum um lýðræðisvæðingu og raunhæfar lausnir. Þau verða kynnt á næstu dögum og vikum. En spurningin er ekki bara hvað getur Alda gert fyrir þig heldur hvað getur þú gert fyrir lýðræði og sjálfbærni? Alda óskar eftir því að fá sem flesta til liðs við sig og starfið byggist á hugmyndum félagsmanna.

Comments are closed.