Fundurinn haldinn í Hugmyndahúsinu.
Mætt voru, stjórnarfólk: Íris, Helga, Björn, Kristinn Már, Dóra, Sigurður.
Almennt félagsfólk: Hulda Björg, Júlíus, Guðni Karl, Gústav, Metúsalem.
Íris stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Fjölmiðlalög.
Kristinn Már reifaði lögin. Almennar umræður um umfang laganna og hvort þau væru í takt við tímann, t.d. m.t.t. netmiðla. Júlíus talaði um mikilvægi þess að fjölmiðlar þjóni lýðræðinu. Kristinn Már velti fyrir sér umræðu um ritskoðun og benti á að stjórnsýsluleiðirnar sem skilgreindar eru í lögunum væru ekki af hefðbundnum toga. Ekki væri heldur gagnsætt hvernig eftirlitsnefnd með fjölmiðlum væri skipuð. Dóra benti á að enginn úr auglýsingabransanum hefði verið hafður með í ráðum við samningu laganna. Rætt um samvinnufyrirkomulag í fjölmiðlum. Kristinn Már lagði til að lögin yrðu send til allra á póstlista félagsins og leitað viðbragða félagsmanna og var það samþykkt.

2. Frumvarp til upplýsingalaga.
Kristinn Már reifaði frumvarpið og benti á að í því væri gert ráð fyrir fjölmörgum undanþágum frá upplýsingaskyldunni. Í raun væru öll vinnugögn lokuð almenningi, aðeins niðurstöður mála væru öllum opnar. Kristinn Már lagði til að taka saman gagnrýnar athugasemdir við lögin og koma þeim til Alþingis hið fyrsta. Hann bauðst jafnframt til að taka þessar athugasemdir saman. Samþykkt.

3. Tillögur félagsins til stjórnlagaráðs.
Íris sagði frá nýliðnu þingi um tillögur félagsins sem var vel sótt og tókst í alla staði vel. Fjórir stjórnlagaráðsfulltrúar sóttu fundinn. Kristinn Már talaði um nauðsyn þess að fylgja þessu eftir og halda innan tíðar annan fund þar sem sérstaklega yrði fjallað um lýðræðisvæðingu fyrirtækja. Samþykkt að málefnahópur um lýðræðislegt hagkerfi taki þetta verkefni að sér.

Einnig var rætt um nauðsyn þess að láta ekki hér staðar numið varðandi stjórnarskrártillögurnar og kynningu þeirra. Íris og Kristinn Már bentu á umræður um tillögurnar á vefsíðu stjórnlagaráðs og brýndu stjórnarmenn og almenna félagsmenn til að taka þátt í þeim.

Kristinn Már sagði frá því að stjórnlagaráð hafi lýst áhuga á að fá tillögu að ákvæði um sjálfbærni frá félaginu. Málefnahópur um sjálfbærni tekur á málinu á næsta fundi sínum.

4. Umfjöllun um Öldu.
Kristinn Már, Dóra og Björn sögðu frá áhuga erlendra fjölmiðla á starfsemi félagsins.

5. Önnur mál.
Dóra sagði frá því að ný vefsíða félagsins er nú óðum að taka á sig mynd og verður opnuð síðar í mánuðinum ef allt fer að óskum. Rætt um mikilvægi þess að vefsíðan verði að hluta til á ensku og um nauðsyn þess að dreifa byrðunum af þýðingavinnunni.