Á aðalfundi félagsins þann 15. október s.l. voru samþykktar ýmsar breytingar á lögum Öldu sem miða að því að opna starf félagsins og auka lýðræði. Meðal helstu breytinga má nefna að nú hafa allir félagsmenn atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Frá stofnun félagsins hafa allir stjórnarfundir verið opnir og hver sem er haft rétt til að taka þátt í umræðum og koma með tillögur. Hins vegar höfðu aðeins stjórnarmenn formlegan atkvæðisrétt. Héðan í frá hafa allir viðstaddir félagsmenn jafnan atkvæðisrétt á stjórnarfundum – eitt atkvæði á mann. Stjórnarmanni er hins vegar heimilt að vísa ákvörðun stjórnarfundar sem stangast á við samþykktir félagsins til félagafundar sem úrskurðar í málinu.

Nafni félagsins var formlega breytt frá því að vera Lýðræðisfélagið Alda í að vera Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði.

Einnig voru gerðar breytingar á kosningum til stjórnar og stjórninni sjálfri. Nú er kveðið á um að stjórnarmenn séu talsmenn og ábyrgðarmenn fyrir starfsemi félagsins. Ákveðið var að fækka í stjórninni til að gera hana sveigjanlegri en reynslan af því að hafa 13 manns í stjórn félags sem heldur úti mjög virku starfi var sú að oft var of erfitt að koma saman stærstum hluta stjórnarinnar. Nú sitja í stjórn níu manns sem kjörnir voru á síðasta aðalfundi.
Gerð var sú breyting að á næsta aðalfundi verða kjörnir sjö menn í stjórn á aðalfundi og svo tveir til viðbótar valdir í stjórn með slembivali úr röðum félagsmanna. Slembival fulltrúa hefur gefið góða raun víða um heim, sérstaklega til þess að ljá hópum rödd sem hingað til hafa ekki átt upp á pallborðið. Félagsmönnum verður gefið færi á að segja sig frá slembivalinu áður en það fer fram. Þessar breytingar verða kynntar nánar í vetur og ítarlega áður en þær koma til framkvæmda.

Loks voru gerðar ýmsar breytingar til skýringa og afmörkunar, s.s. að tilgreina hvenær lagabreytingar og framboð þurfi að berast, um kjörnefnd á aðalfundi og kjörskrá og önnur atriði sem mikilvægt er að formfesta svo ekki leiki vafi á hvaða regla gildi.

Lögin má finna hér í heild sinni.

Áfram lýðræðið!