Mánudaginn 14. nóvember verður fundur í málefnahópi um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna. Fundurinn er haldinn að Brautarholti 4 og hefst kl. 20:30. Meðal efnis á fundinum eru umræður um verkefni sem snýst um að teikna upp lýðræðislegan stjórnmálaflokk. Rétt er að geta þess strax að Alda er ekki stjórnmálaflokkur og ætlar sér það ekki. Alda telur hins vegar að stjórnmálaflokkar séu helst til of lokaðar og ólýðræðislegar stofnanir sem megi við svolítilli upplyftingu. Nú eða að kominn sé tími á stjórnmálaflokk með svolítið öðruvísi skipulag en við höfum þurft að venjast.
Stjórnmálaflokkar hafa verið gagnrýndir í gegnum tíðina, og sérstaklega að undanförnu, fyrir margvíslega þætti, s.s. hagsmunatengsl, valdabaráttu, klíkuskap, ógagnsæi, ójafnrétti og foringjaræði svo fátt eitt sé nefnt. Ákvarðanir eru oft teknar í fámennum hópum og valdabarátta milli fámennra hópa er oft fyrirferðarmeiri en eiginleg málefnavinna. Verulega skortir upp á að raddir allra hópa fái að heyrast og verk- og skipulag tryggir ekki rétt flokksmanna gagnvart forystunni.
Alda telur að það séu til lausnir á þessum vandamálum. Meðal þess sem huga verður að er:
1. Hvernig á að haga málefnavinnu þannig að raddir allra fái að heyrast, gagnsæi sé tryggt og að ferlið sé sem lýðræðislegast?
2. Hvaða leiðir eru færar í því að velja fulltrúa þannig að tryggt sé að fulltrúar sem flestra hópa komist að og val á fulltrúum sé málefnalegt?
3. Hvernig skipulag tryggir valddreifingu, aðkomu sem flestra og rétt allra?
4. Með hvaða hætti má koma í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl?
Alda hyggst safna saman góðum hugmyndum, og sérstaklega þeim sem reyndar hafa verið með góðum árangri, og raða saman þannig að úr verði tillaga að skipulagi stjórnmálaflokks – fyrirmyndarflokki. Öllum stjórnmálaflokkum verður svo frjálst að nýta sér þær tillögur, sér að kostnaðarlausu.