Leyfum okkur svolitla einföldun til að byrja með: Nær alla 20. öldina börðust hægri- og vinstriflokkar um markaðshyggju og ríkishyggju: hvort séreignarréttur og afskiptaleysisstefna gagnvart markaði væri betri lausn en sameign og miðstýring eða stíf reglusetning gagnvart markaðnum. Eins og við þekkjum mætavel varð þróunin sú, á heildina litið, að hægriflokkarnir urðu ofan á – öll stjórnmálin færðust til hægri. Stóra myndin var líka sú að samfara auknu frelsi í viðskiptum jókst framleiðslan og samhliða því jukust lífsgæði, svo sem heilsa og hamingja. Þetta getum við séð á eftirfarandi myndbandi sem sýnir samspil landsframleiðslu og heilsu.

Eins og sjá má eru það Vesturlöndin sem greina sig frá öðrum ríkjum til að byrja með en svo jafnast leikurinn smátt og smátt samhliða alþjóðavæðingu og útbreiðslu markaðsvæðingar. Þróunin á 20. öld var sú að samhliða aukinni framleiðslu jukust lífslíkur jafnt og þétt.

Markaðsvæðingunni fylgdi ýmis konar óréttlæti, ódæði og hörmungar; og sömuleiðis voru sumar tilraunir til miðstýrðs hagkerfis vel heppnaðar að stórum hluta. Sömuleiðis hefur komið í ljós að stór hluti framleiðniaukningar undanfarinna ára var bóla. En látum það liggja á milli hluta.

Hugum aðeins að stóru myndinni: að kapítalisminn hefur skilað gríðarlegri framleiðniaukningu og sigraði hugmyndafræðibaráttuna, sérstaklega hér á Vesturlöndum. Eins og Rosling sýndi okkur í myndbandinu að þá voru sterk tengsl á milli framleiðniaukningar og heilsu. Og það voru helstu rök hægrimanna, að aukin markaðsvæðing skilaði auknum hagvexti sem skilaði bættum lífsgæðum. Nú bendir ýmislegt til þess að þessi rök gildi ekki lengur. Þá er ekki vísað til hrunsins og skipulags markaðarins heldur til þess að tengslin milli framleiðniaukningar og lífsgæða hafa rofnað eða veikst verulega. Richard Wilkinson útskýrir þetta í eftirfarandi myndbandi:

Þegar framleiðsla hefur náð háu stigi hættir framleiðniaukning að vega eins þungt hvað varðar lífsgæði og aðrir þættir fara að skipta meira máli. Wilkinson skoðar tengsl á milli framleiðniaukningar og ýmissa lífsgæða og í ljós kemur að fylgnin veikist og jafnvel hverfur þegar borin eru saman rík lönd. Aðrir þættir á borð við jöfnuð hafa hins vegar sterka fylgni við lífsgæði. Með öðrum orðum: Aukin framleiðsla gegnir ekki lengur lykilhlutverki í því að auka lífsgæðin okkar, þar skipta aðrir þættir meira máli, s.s. jöfnuður, heilnæmt og óspillt umhverfi, og félagsauður. Þessar staðreyndir benda til þess að þörf sé á nýju kerfi sem, t.d.:

  • dreifir framleiðslunni með jafnari hætti og að framleiðniaukning nýtist til að stytta vinnutíma
  • nær markmiðum um sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni
  • tengir almenning betur saman og gefur honum færi á að eiga hlutdeild í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins

Kerfið sem við búum við í dag, og stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum keppast við að halda saman, laga og jafnvel endurreisa, getur ekki náð þessum markmiðum. Til þess þurfum við nýtt kerfi í stað þess sem hrundi. Og sem betur fer eru okkur ýmsar leiðir færar í því. Á undanförnum árum og áratugum hafa verið reynd ýmis verkefni í lýðræðis- og sjálfbærnivæðingu um allan heim sem hafa skilað góðum árangri. Alda vinnur að því að safna þeim saman, koma á framfæri og í framkvæmd.

Kristinn Már Ársælsson

One Thought to “Er kapítalisminn á leiðarenda?”

  1. Júlíus Valdimarsson

    Takk fyrir þetta Kristinn, þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Kapitalisminn er til allrar hamingju ekki endastöð eða endalok sögunnar. Hann er þó mögulega endalok á forsögu mannsins, sem er að vakna til vitundar um mennsku sína og möguleika til að búa til öðruvísi heim – mennskan heim!

Comments are closed.