Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, sendi nú fyrr í kvöld þingnefnd Alþingis eftirfarandi umsögn en umsagnarfrestur um tillögurnar var til og með 30. nóvember 2011.

1. Alda telur að það breytingarferli sem ákvarðað var upphaflega með lögum um Stjórnlagaþing og síðar Stjórnlagaráð hafi hvorki verið nægilega vel afmarkað né umfangsmikið fyrir það verkefni að endurskoða Stjórnarskrá Íslands. Alda telur þá nýbreytni að fela persónukjörnu borgaraþingi (Stjórnlagaráði) veigamikinn sess í ferlinu lofsverða. Slíkar tilraunir, t.d. með slembivalsþing hafi víða reynst vel, m.a. í Bresku-Kólumbíu. Rétt er þó að benda á að áhugi og traust almennings á slíkum ferlum er meira þegar ákvarðanir lýðræðislegra ferla sem fela í sér þátttöku almennings eru bindandi eða ljóst er að almenningur eigi síðasta orðið með einhverjum hætti. Þau atriði sem Alda telur að endurskoðunarferli á Stjórnarskránni þurfi að uppfylla og/eða skorti upp á í ferlinu sem ráðist var í:

  • Tímamörk voru of knöpp í starfi Stjórnlagaráðs. Gefa þarf rúman tíma til endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Helst þarf slíkt ferli að standa yfir í nokkur ár, á mismunandi stigum.
  • Ekki var ljóst hver málsmeðferðin yrði hvað varðar afgreiðslu á þeim tillögum sem Stjórnlagaráð myndi skila frá sér. Í ljósi þess hversu lítið traust er á Alþingi má gera ráð fyrir að það dragi úr trausti á ferlinu í heild og áhuga almennings.
  • Alda telur það ófrávíkjanlega lýðræðislega forsendu að almenningur samþykki eða synji breytingum á stjórnarskránni með beinum hætti. Forgangsmál er að tryggja þann rétt. Alda telur mikilvægt að kosið sé um einstök ákvæði til breytinga á stjórnarskránni.
  • Nauðsynlegt er að halda opna fundi út um allt land í tengslum við ferlið þar sem almenningi gefst færi á að ræða um stjórnarskránna. Umræðuferlið við slíka vinnu þarf að vera umfangsmeira en verið hefur.
  • Störf Stjórnlagaráðs voru ekki nægilega gagnsæ og formföst. Fundargerðir voru ekki aðgengilegar og fundir lokaðir þannig að almenningur gat ekki fylgst með umræðunum. Þótt tekið væri á móti tillögum og athugasemdum var þeim ekki svarað formlega og upplýsingar um efnislega afgreiðslu þeirra ekki aðgengilegar.
  • Fjölmiðlaumræða og opinber kynning í ferlinu var ófullnægjandi.

2. Alda álítur að Alþingi og sitjandi valdhafar séu helsti hagsmunaaðilinn að gerð nýrrar stjórnarskrár og eigi því ekki að leika ráðandi hlutverk í gerð hennar. Stjórnvöld í Bresku Kólumbíu færðu t.d. ákvörðun um breytingar á kosningalöggjöf í slembivalsþing og almenna atkvæðagreiðslu vegna þess að stjórnmálaflokkarnir eru hagsmunaaðilinn í því hvernig kosningakerfið er uppbyggt. Tillögur að nýjum ákvæðum/breytingum eiga að koma frá öðrum aðilum, s.s. úr umfangsmiklu lýðræðislegu ferli þar sem tryggð eru tækifæri til þátttöku almennings á mörgum stigum, með mismunandi lýðræðislegum ferlum. Ábyrgð Alþingis skal felast í því að tryggja að slíkt ferli sé nægilega vandað og lýðræðislegt.

3. Alda telur að talsvert vanti upp á lýðræðisleg réttindi í tillögum Stjórnlagaráðs, s.s. hvað varðar réttindi til þess að ákvarðanir fari í lýðræðisleg ferli (Borgaraþing) og að atvinnulífið lúti leikreglum lýðræðisins. Einnig er ekki nægilega skýrt kveðið á um það í tillögunum að Ísland skuli sjálfbært þannig að framleiðsla og neysla gangi ekki á auðlindir og vistkerfi jarðar þannig að óafturkræfur skaði hljótist. Rétt er að benda sérstaklega á að nær engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni er lúta að efnahagskerfinu í ljósi þess að endurskoðun hennar kemur til í kjölfar efnahagshruns. Að öðru leyti vísar Alda í tillögur sínar til Stjórnlagaráðs (http://alda.is/?p=340) og er félagið reiðubúið til þess að vinna nánar að útfærslum tillagna sinna.

4. Alda hefur áhyggjur af því að ferlið sé orðið að pólitísku bitbeini, þar sem skammtímahagsmunir stjórnmálaflokka ráði för fremur en heildarhagur almennings.

5. Alda telur að halda skuli breytingaferlinu áfram og gætt að þeim atriðum sem getið var um í 1. lið að ofan. Sé ekki vilji til þess af hálfu stjórnvalda skal kosið beint um tillögur Stjórnlagaráðs, að gerðum tæknilegum en ekki efnislegum breytingum, í almennri atkvæðagreiðslu og skulu fulltrúar almennings á Alþingi hlíta þeirri niðurstöðu. Kjósa skal um hvert ákvæði fyrir sig og ákvarða málsmeðferð sé ákvæði fellt.

Ályktanir Öldu er varða málið