Fundur var settur kl. 20:00

Mættir: Ásta, Árný, Nína, Hulda, Guðni, Þórarinn, Ollý, Dóra, Hjalti

Fundarstjóri: Hjalti Hrafn Hafþórsson

Fundinn ritaði: Dóra Ísleifsdóttir

 

Dagskrá fundar:

1. Þátttaka Öldu í Grænum þemadögum.

Nína og Árný, f.h. nemendafélags Umhverfis- og auðlindafræði, HÍ kynntu þemadagana fyrir fundargestum. Og lýsa eftir þátttakendum. Áhugasamir geta haft samband við Nínu Maríu Saviolidis, nms@hi.is

Grænir dagar verða 18. – 22. mars og er þemað að þessu sinni sköpun. Fyrirlestrar verða í Norrænahúsinu (m.a. Bill McDonald: Sustainable Cities) og viðburðir á háskólatorgi eða tengdum byggingum. Árný og Nína munu senda dagskrá þegar hún er lengra komin, en eru að leita að fyrirlesurum, hugmyndum, viðburðum eða sýningum þar sem unnið er með hugmyndir um umhverfisvæna samfélagshegðun, endurvinnslu o.s.frv.

Dóra Ísleifsdóttir mun kynna þemadagana innan LHÍ og leita að viðeigandi efni þar.
Ásta Hafberg mun kynna hugmyndir um Sjálfbærniþorp á þemadögum og mun vinna grind að skýrslu um Sjálfbærniþorp fyrir 18. mars. Ásta verður í sambandi við Nínu um þetta framlag Öldu á Grænum dögum.

Guðni heldur áfram að kynna sínar hugmyndir um sjálfbærniþorp / atvinnumiðstöð.

 2. Sjálfbærniþorp

Þórarinn Einarsson, Guðni Karl Harðarson (http://hreinn23.blog.is/blog/hreinn23/entry/1202226/) og Ásta lýsa hugmyndum sínum um sjálfbærniþorp. Þórarinn segir frá fyrirætlunum um að kaupa land (líklega á Vestfjörðum) og stofna um verkefnið sjálfseignarstofnun (eða kaupa slíkt félag). Hann segir einnig frá reynslu sinni og lærdómi af sjálfboðavinnuferð til Haíti. Þórarinn leggur til að Alda stofni sérstakan hóp um „Permakúltúr“. Við samantekt er niðurstaðan að hugmyndirnar eigi margt sameiginlegt en megi greina ólíkar áherslur sem e.t.v. er hægt að kalla þrjár ólíkar leiðir:

a) Sjálfbærniþorp sem tilraunastöð og rannsóknarsetur

b) Sjálfbærniþorp sem sjálfstætt og sjálfbært samfélag sem lýtur eigin lögmálum

c) Sjálfbærniþorp sem aðferð til byggðaþróunar og atvinnusköpunar

Niðurstaða fundarins er að réttast sé að vinna saman og ræða hugmyndir en jafnframt að hver hópur eða einstaklingur vinni áfram að sjálfstætt. Leitast sé við að miðla reynslu og upplýsingum. Allir sameinist um að kynna hugmyndina um sjálfbærniþorp sem víðast og afla henni brautargengis með því að útskýra hver markmiðin eru.

Nefndir eru til sögunnar ýmsir sem hafa unnið að svipuðum hugmyndum (Ollý nefnir t.d. Hljómalindarhópinn, og ætlar að athuga með gögn frá þeirri vinnu). Ákveðið er að hafa samband við þá sem vitað er að hafa áhuga og reynslu.

Auglýst er eftir fólki til að gera greinargerð um „permakúltúr“ og möguleika til nýtingar þeirrar hugmyndafræði á Íslandi og eða dæmum um að það sé þegar gert.

 3. Hönnunarstefna Öldu

Hönnunarstefna Öldu er í smíðum. Hönnunarstefnan er eðlilegt framhald af vinnu Öldu að stefnu fyrir stjórnmálaflokka um sjálfbærni í umhverfismálum (http://alda.is/?p=2086) sem unnin var 2012. Sú vinna heldur áfram.

4. Önnur mál

Hjalti leggur til að stofnaður verði vinnuhópur um réttindi dýra á Íslandi. Hagur dýra á Íslandi sé bágari en almennt er talið og dýraafurðir framleiddar (kjöt, fiskur, egg, mjólkurvara o.s.frv.) með aðferðum sem eru ómannúðlegar og óásættanlegar í síauknum mæli. Þjóðsagan um hreina, holla og væna framleiðslu sé ósönn, enda matvælaframleiðsla hér einungis fegruð „Factory Farming“ þó enn séu bændur sem haga bústörfum með upprunalegri hætti. Fundarmenn taka hugmyndinni fagnandi. Dóra leggur til að hugmyndin verði útvíkkuð og taki á réttindum jarðarinnar, mannréttindum og réttindum annarra lífvera. Umræða þróast um matvælaframleiðslu, áhrif hennar á líf dýra, skort á upplýsingum um innihald og framleiðslu matvæla, vantraust fólks á vottunarkerfum sem hafa orðið uppvís að ósannindum eða að halda upplýsingum frá kaupendum vara o.s.frv. Dóra minnir á að hópurinn hafi í árdaga félagsins farið vítt og breitt og síðan tekið saman lista yfir verkefni sem falla undir sjálfbærnihóp.

Niðurstaðan var að auglýsa eftir, og leita uppi fólk til að leiða vinnu um réttindi manna, lífvera og jarðar, sem og hóp um neytendavernd og rekjanleika og gegnsæi í upplýsingum um matvöru og matvælaframleiðslu.

Fundi slitið: 21.20

 

 

4 Thoughts to “Fundargerð – sjálfbærnihópur 30. janúar”

  1. Mörður G.Ott.

    Við þurfum að hittast, er að skoða möguleika á sjálfbærnibýli í borgarfirði, aðstoða við skipulag vistræktarbýlis á suðurlandi, bent ykkur á dýraverndunarhópa og veitt ykkur upplýsingar um vistrækt (permaculture). Mun hafa samband við ykkur á morgun ef þið eruð ekki fyrri til.

  2. Hallur Hróarsson

    Ég hefði mikinn áhuga á því að koma að þessari greinargerð um permaculture sem ég myndi helst vilja að væri kallað vistrækt eða vistræktun á íslensku.

    Hvar get ég skráð mig í það?

    kveðja
    Hallur Hróarsson

  3. Sælir, við erum að plana að vera með fund 5. mars að öllu óbreyttu. Við setjum nánar um það inn á síðuna hérna þegar nær dregur. Það er um að ger fyrir ykkur að mæta og vera með í að móta þetta áfram.

  4. Dóra Ísleifsdóttir

    Heilir og sælir,
    þú getur skráð þig í félagið hér á síðunni Hallur ef þú vilt. Þá færðu póst um allt sem gerist innan Öldu (skráningin kostar ekkert og felur ekki í sér neina skuldbindingu). Næsti fundur hefur ekki verið boðaður en verður annað hvort 5. eða 7. mars í Brautarholti 4 (Grasrótarmiðstöð).
    Þá væri frábært að þið kæmuð báðir, Mörður og þú.

    Við setjum fundarboðið hér á síðuna um leið og fundurinn hefur verið bókaður (smá spurning um daginn vegna annarra funda í húsnæðinu). Og á Facebook síðu Öldu.

    Blessi ykkur,
    Dóra.

Comments are closed.