Stjórnarfundur var haldinn 4. júní 2014.

Mættir voru: Hjalti Hrafn, Sólveig Alda (er ritaði fundargerð og stýrði fundi), Kristinn Már, Júlíus Valdimarsson og Hulda Björg.

1. Starf málefnahópa.

Kristinn Már var með erindi á opnum fundi í Garði um lýðræði að beiðni tveggja framboða, N og Z lista. Fundurinn var vel sóttur. Mikill áhugi er í sveitarfélaginu um að haldið verð persónukjör í stað listakjörs. Ekki var orðið við beiðni meirihluta íbúa þess efnis. Rætt var um að bjóða upp á samsvarandi kynningu næsta haust fyrir þá lista sem náðu inn manni í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Hjalti Hrafn var með erindi hjá Húmanistaflokknum um skilyrðislausa grunnframfærslu. Hefur sá flokkur það á stefnuskrá sinni að koma á skilyrðislausri grunnframfærslu.

Borgarbýli er komið með land í Seljahverfi og verkefnið er komið vel af stað. Stefnt er að útvíkkun verkefnisins með því að fjölga svæðum í Reykjavík sem og búa til aðstöðu til gróðurræktar innan borgarinnar allt árið um kring. Félagið mun veita Borgarbýli stuðning við að skipuleggja sitt starf lýðræðislega. Alda hvetur fólk til að taka þátt í þessari hreyfingu og nýta garða til ræktunar.

Félagsmenn í Öldu komu að aðgerðum til stuðnings hælisleitanda sem átti að vísa úr landi. Sá málaflokkur er að mati félagsins enn í ólestri og ekki hefur verið farið að tillögum þess. Ákveðið var að Hjalti Hrafn og Kristinn Már myndu óska eftir fundi með forstjóra Útlendingastofnunar til að fara yfir stöðuna.

2. Common Causes námskeið.

Námskeiðið var vel sótt. Markmið þess var að efla tengsl grasrótarhópa. Margir hópar/félög spruttu upp í kjölfar hrunsins og eru mörg þeirra enn virk. Farið var yfir á námskeiðinu hvað vísindin segja um hvað þurfi til að fólk breyti eigin hegðun. Höfða þarf til gilda. Varasamt geti verið að höfða til persónulegs og þá sérstaklega fjárhagslegs ábata, í því kunni að felast skammgóður vermir. Stefnt er á annað og lengra námskeið eða vinnubúðir í haust og hugsanlega sérstakan fund fyrir náttúruverndar- og sjálfbærnisamtök.

3. Önnur mál.

Nokkuð rætt um næsta stjórnarár og endurnýjun. Ljóst er að nokkrir stjórnarmenn geti ekki boðið sig fram til stjórnar á næsta ári. Félagsmenn séu hvattir til að bjóða sig fram til stjórnar í haust.

Samþykkt var að flytja lögheimili Öldu úr Brautarholti og til Hjalta Hrafns.

Rætt um afstaðnar sveitarstjórnarkosningar og þær umræður er hafa spunnist um mosku í Reykjavík. Samþykkt var stutt ályktun/orðsending vegna málsins.

Áhugi fyrir því að haldnir verði kynningarfundir næsta haust/vetur um stefnu félagsins. Halda verður á lofti stefnu félagsins, sem er lifandi og byggir sem mest á reynslu og vísindalegum rannsóknum á virkni og gæðum ólíkra aðferða.

Fundi slitið rétt fyrir kl. 22.