Fundur hóps um lýðræðislegt hagkerfi var haldinn 3. febrúar 2011 í Hugmyndahúsinu, kl. 20:30.
Kristinn Már stýrði fundinum og Arnar Sigurðsson og Helga Kjartansdóttir rituðu fundargerð.
Fundinn sátu: Kristinn Már, Helga, Kári Páll, Guðmundur Ágúst, Arnar Sigurðsson, Sveinn Máni, Hjalti og Svavar.
Umræðuefni fundarins var hugmyndafræði bandaríska heimspekingsins og þjóðfélagsgagnrýnandans David Schweickart. Stuðst var við 3. kafla bókar hans After Capitalism, frá árinu 2002; sem var einmitt lesefni fundarins.
Fundargestir skeggræddu hugmyndir Schweickart um lýðræðislegt hagkerfi (Economic Democracy) í þeim tilgangi að glöggva sig betur á kenningum hans.
Meðal annars var rætt um þá meginhugmynd Schweickart að starfsmennirnir taki sjálfir yfir stjórn vinnustaða og verksmiðja. Fyrirmyndir þessarar samfélagsmyndar sækir Schweickart í hugmyndir um starfsmannasamvinnufélög, sbr. Mondragón samvinnufyrirtækið á Spáni.
Í því samhengi spruttu umræður um annars vegar lýðræðislega ástundun innan fyrirtækja (þe. milli starfsmanna og fulltrúa) og hins vegar milli fyrirtækja. Sérstaklega var vakin athygli á því að fyrirtæki geta lent í harðri samkeppni sín á milli og að eftirlitsstofnanir á vegum Ríkisins séu eftir sem áður þarfar.
Í framhaldinu var rætt um annars vegar hugmyndir Schweickart um hlutverk markaðarins og hins vegar Ríkisins. En skv. honum munu markaðslögmál framboðs og eftirspurnar gilda áfram á markaði fyrir vörur og þjónustu, og þá fyrst og fremst sem hvati fyrir atvinnulífið. Fjárfestingum er hins vegar af stórum hluta stýrt af hinu opinbera sem notar fjárfestingarsjóði sem fjármagnaðir með skattheimtu fyrirtækja. Þrátt fyrir hugmyndir Schweickart um að dregið sé verulega úr völdum markaðarins og Ríkisins (m.ö.o. valddreifing og beinna lýðræði), þá var í þessu samhengi sérstaklega tekin til umræðu sú hætta sem getur stafað af spillingu, “lobbíisma” og menningarbundinni mismunun sbr. kynbundinni mismunum og þeim völdum sem felast í því að búa yfir aðgangi að þekkingu.
Kristinn lagði sérstaka áherslu á að ekkert kerfi væri fullkomið eða endanlegt.
Umræðan spannst nú út í heimspekilegri kima og áhugaverð umræða átti sér stað um eðli mannsins. Þar á meðal var rætt um samfélagslega mótun mannsins og velt fyrir sér hver eða hvort manngerð hins lýðræðislega hagkerfis væri?
Að lokum voru fundarmenn og konur minnt á lesefni næsta fundar hjá lýðræðislega hagkerfishópnum, en það eru núgildandi lög um samvinnufélög á Íslandi. Næsti fundur verður haldinn 6. febrúar kl. 16 í Hugmyndahúsinu og mun Bragi Halldórsson hjá Hljómalindarhópnum miðla af reynslu sinni af íslenska lagaumhverfinu.
Fundi slitið kl. 22.00