Framhaldsstjórnarfundar frá 1. febrúar 2011.  Nú er haldið áfram með umfjöllun um tillögur félagsins til stjórnlagaþings, fjallað um vefsíðu og stöðu í vinnuhópum.

Dagskrá fundar.
1. Niðurstaða hæstaréttar og stjórnlagaþingið
2. Tillögur félagsins til stjórnlagaþingsins
3. Fundur um Wikileaks og upplýsingamál
4. Vefsíðan
5. Staðan í vinnuhópum
6. Önnur mál

Fundarstjóri er Íris Ellenberger og Sólveig Alda Halldórsdóttir ritar fundargerð.  Mættir: Björn Þorsteinsson, Harpa Stefánsdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Helga Kjartansdóttir, Dóra Ísleifsdóttir, Snorri Stefánsson, Íris Ellenberger og Sólveig Alda Halldórsdóttir.

Dagskrá haldið áfram frá því 1. febrúar. Á þeim fundi var ályktun vegna dóms hæstaréttar um stjórnlagaþing samþykkt.

2. Tillögur félagsins til stjórnlagaþingsins
Harpa las upp tillögur til stjórnlagaþings til samþykktar.
Spurt var um ástæðu þess að ekki er sett fram ákvæði um sjálbærni og auðlindir í tillögunum. Ástæða þess er að félagið hefur verið í samstarfi við Félag umhverfisfræðinar á Íslandi og mun mögulega vinna sérákvæði með þeim. Ákvæðið er ekki tilbúið en mun verða tekið fyrir síðar.

Forseti
Alþingi kýs forseta og varaforseta úr röðum ráðherra einu sinni á ári. Enginn má sitja sem forseti lengur en eitt ár í einu. Forseti stýrir ríkisstjórnarfundum og kemur fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri. Hann hefur engin völd umfram aðra ráðherra og sinnir ráðherraembætti sínu á meðan hann er forseti.

Kosningakerfi (31. grein)
Á Alþingi eiga sæti 42 þjóðkjörnir þingmenn og 21 sem valdir eru með slembivali úr röðum allra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-70 ára. Þjóðkjörnir þingmenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Helmingur þeirra skal valinn með persónukjöri og aðrir með listakosningu. Nota skal Single Transferrable Vote-kerfi. Kjósandi getur valið frambjóðendur af mismunandi listum. Slembival fer fram þegar úrslit kosninga liggja fyrir. Aðeins má muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni, af listakosningu, persónukjöri og af slembivalsfulltrúum.

Allir þingmenn eru kjörnir til 4 ára. Þingmenn eru þjóðkjörnir og ekki fulltrúar síns kjördæmis, heldur þingmenn þjóðarinnar allrar.

Kjördæmi
Kjördæmi skulu ákvarðast af fjölda íbúa og landfræðilegri stærð. Þau geta ekki verið fleiri en 21 en að öðru leyti útfærð í kosningalöggjöf.

Öll þrjú ofantalin ákvæði samþykkt.

Opið lýðræði (57. grein)
Fundir Alþingis og allir fundir hins opinbera skulu ávallt haldnir í heyranda hljóði. Allar upplýsingar og fundargögn skulu vera aðgengileg almenningi með skilvirku móti. Öll opinber gögn skulu aðgengileg og engar reglur gilda sem leyfa frávik frá þeirri reglu. Almenningi er heimilt að ávarpa Alþingi reglulega, t.d. á tilteknum tíma í viku hverri

Ákvæði samþykkt með eftirfarandi skilyrðum:  Greinagerð þarf að vinna betur og er því verkefni vísað til stjórnlagaþingshóps. Það þarf að ræða um sérhagsmuni t.d. lögreglu við stórar rannsóknir. Einnig skoða persónuverndarákvæði. Óskað eftir að hópurinn setji inn sérstakt persónuverndarákvæði.

Ráðherrar
Kosið er um ráðherra almennri kosningu samhliða kosningum til Alþingis. Kosið er milli fjögurra umsækjenda, tveggja kvenna og tveggja karla, um hvert ráðherraembætti sem valdir eru af nefnd. Í nefndinni sitja sjö kjörgengir borgarar valdir með slembivali. Ráðuneytum er skylt að vera nefndum innan handar með upplýsingar og aðstoð. Hlutfall ráðherra af hvoru kyni skal vera jafnt. Reynist kynjahlutfallið ójafnt skal það leiðrétt með því að varpa hlutkesti sem ákvarðar í hvaða ráðuneyti/um ráða skuli atkvæðahæsta umsækjandann af því kyni sem hallar á. Ekki er heimilt að vera í framboði til alþingis og til ráðherraembættis samtímis.

Umræður: Nefndin er sjálfráð um viðmið. Öll gögn og störf nefndar er opin og þvi er almenningur eftirlitsnefnd svo ólíklegt er að hún setji sér undarleg viðmið.  Ákvæði samþykkt en um þetta þarf að fjalla í greinargerð, ásamt því að bæta inn að ráðherrar hafi ekki frumkvæðisrétt á Alþingi.

Dómendur
Settar skulu reglur um hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu. Ráðherra gengur úr skugga um að umsækjendur uppfylli skilyrði sem kveðið er á um í lögum. Valið er á milli hæfra umsækjenda með teningakasti. Aðeins má muna einum á milli kynja.

Ákvæði samþykkt en með skilyrðum um viðbót í greinargerð: aðeins er valið milli kk og kvk í hvert sinn. Umræður spunnust um hæfnisskilyrði en tekin ákvörðun um að setja engar slíkar kröfur inn að svo stöddu.

Fyrirtæki (72. grein)
Fyrirtæki , félög og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag.

Samþykkt með breytingum og breytingum á greinargerð. Fjalla þarf um skilgreiningu á atkvæðisrétti og hverjir falla undir starfsmenn. Skoða verktaka og sjálfboðalið. Starfsmenn ákveði stjórnskipulag sjálfir, hvernig þeir öðlist atkvæðisrétt osfrv. Mikilvægt er að ekki sé hægt að svipta starfsmann atkvæðaréttinum.   Snorri verður hópnum innan handar í þessu.

Borgaraþing
Löggjafarvaldinu er heimilt að framselja vald sitt að hluta til borgaraþinga sem mönnuð eru öðrum en Alþingismönnum og valdir eru með hlutbundinni kosningu eða slembivali. Þriðjungur þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geta krafist borgaraþinga um brýn málefni.

Ákvæði samþykkt

Þjóðaratkvæðagreiðslur
Þriðjungur þingmanna eða 8% atkvæðisbærra manna geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp sem lögð eru fram af þingfulltrúum og/eða almenningi.

Frumvörp til Alþingis. Almenningur getur lagt fram frumvarp á Alþingi.

Ákvæði samþykkt með breytingum. Og bætt við ákvæði um frumvörp.

Fjármál stjórnmálaflokka
a) Stjórnmálasamtökum, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, er heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Stuðningur hins opinbera skal felast í öðru en beinum fjárframlögum.

b) Fjárhagslegur stuðningur við stjórnmálasamtök, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, er heimill upp að tiltekinni heildarfjárhæð. Sama á við um framlag frá hverjum einstökum stuðningsmanni.

c) Frambjóðendum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Þeim skal heimilt að eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í kosningabaráttu.

d) Fjárframlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna skulu ávallt opin almenningi til skoðunar og háð opinberu eftirliti.

Fundarmönnum fannst málfar óþarflega flókið. En innihaldið mjög gott. Ákvæði samþykkt en vísað til stjórnlagaþingshóps til umorðunar og einföldunar.

Aðgengi að fjölmiðlum
a) Framboðum í alþingiskosningum skal tryggður jafn, nákvæmlega tilgreindur og víðtækur aðgangur að útvarpi og sjónvarpi, og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlum hverju sinni, til þess að kynna stefnumál sín.

b) Framboðum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að ráðstafa tiltekinni hámarksfjárhæð í pólitískar auglýsingar í kosningabaráttu, það er á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga.

Ákvæði samþykkt með breytingum.

Það vantar sér ákvæði um stjórnlagaþing og um setu manna í opinberum störfum. Því vísað til stjórnlagaþingshóps.

3. Fundur um Wikileaks og upplýsingamál
Umræðu frestað fram í mars.

4. Vefsíðan
Dóra og Sólveig kynntu hugmyndir ritstjórnar um heimasíðuna. Sýndu skissur að skipulagi. Guðný Þorsteinsdóttir hefur verið fengin til að sjá um forritun síðunnar og Anton Kaldal mun sjá um hönnun á viðmóti. Guðný hefur einnig boðið ókeypis hýsingu á síðunni. Ritstjórn heldur áfram vinnu.

Óskað er eftir ábendingum frá félagsmönnum að áhugaverðum tenglum, greinum eða hverju því sem fellur undir stefnu Lýðræðisfélagsins Öldu.

5. Staðan í vinnuhópum
Málefnahópur um stjórnlagaþing á eftir að sníða agnúa af tillögum en mun ekki halda fleiri fundi nema eitthvað breytist varðandi stjórnlagaþingið. Vinnan mun fara fram í gegnum tölvupóst.

Í stað stjórnlagaþingshóps mun Stjórnmálasviðshópur, eða málefnahópur um lýðræði á sviði stjórnvalda, sem legið hefur í dvala vegna vinnu stjórnlagaþingshópsins, taka til starfa eftir í febrúar.

Málefnahópur um lýðræðislegt hagkerfi hefur verið ötull það sem af er ári. Góður gangur er í hópastarfi. S.l. sunnudag var haldinn fundur um samvinnurekstur og samvinnufélagslögin. Góð mæting var og mikill áhugi. Hópurinn stefnir í að semja tillögu að nýjum lögum ásamt almennri stefnuplaggi fyrir félagið. Mun það lagt fyrir stjórnarfund í byrjun apríl. Umfjöllun um fjármálahlið lýðræðislega hagkerfisins bíður að sinni.

Málefnahópur um sjálfbært lýðræði hefur fest sér fundartíma á mánudögum. Ýmsar hugmyndir eru það innanborð s.s. um málþing í júni um aktívisma ofl. Hópurinn mun skila af sér stefnuplaggi á stjórnarfundi í apríl. Næsti fundur hefur verið bókaður mánudaginn 14. febrúar.

Allir hópar hvattir til að hugsa um viðburði tengda starfinu. Grípa tækifæri sem bjóðast og finna leiðir til að koma stefnu félagsins á framfæri.

Þegar hópar hafa skilað af sér greinargerðum/stefnuplöggum mun stjórnin sjá um frekari kynningu á þvi. Gott væri að heimasíðua væri tilbúin þá.

6. Önnur mál
Dóra óskaði eftir að fjármálum félagsins verði komið í farveg, greiða þarf útlagðan kostnað vegna kaffikaupa á stofnfundi, vegna kaupa á léni ofl. Sólveig tekur að sér að stofna reikning oþh.

Fyrirspurn hefur komið frá félagsmann um hvort félagið myndi greiða eða styrkja félagsmenn á námskeið sem þykja heillavænleg fyrir starf félagsins. Stjórnin myndi skoða það og finna til þess fjármögnunarleiðir. Eins og er eru ekki neinir aurar að koma inn en ljóst er að til aurasöfnunar þurfi að koma.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur um fjármál og fjármögnun og skal því lokið hið síðasta fyrir næsta aðalfund. Allt bókhald verður að sjálfsögðu opið en ræða þarf hversu háar fjárhæðir verði hægt að leggja til félagsins og frá hverjum.

Fundi slitið kl.22.24

2 Thoughts to “Fundargerð stjórnar 8. febrúar 2011”

  1. Nils Gíslason

    Heil og sæl. Ég var á fundi með ykkur um daginn og var mjög hrifin af því hversu opin umræðan var fyrir nýjum tillögum. Þarna var rætt um forsetaembættið. Tillaga var um að velja einn af fáðherrum til að sinna því. ég geri mér ljóst að lýðræðisandinn er viðkvæmur fyrir því að einn hafi meiri „völd“ ég kalla það skyldur en annar. Það lýðræði sem verið er að nýta í þessari umræðu er fulltrúa lýðræði. Forseti sem er kosinn af þjóðinni er fulltrúi með verulegar skyldur og mjög takmörkuð völd, sem ætti að geta fallið að LÝÐRÆÐI. Ráðherra sem er munstraður sem forseti þjóðarinnar er ekki kosinn af neinum heldur aðeins ráðinn sem starfsmaður t.d. byggingarverkfræðingur úr Iðnaðarráðuneytinu.
    Ég tel að það þurfi að afgreiða þetta með meiri rósemi og yfirvegun. Einnig þarf að athuga hversu mikið „starf“þetta er í raun. Ef einhver ráðherra þarf að sinna þessu starfi þá er hætt við að hann verði meira forseti en ráðherra og varamaður hans verði aðal ráðherran. Sem sagt ég tel að það þurfi að skoða þetta án þess að umræðan litist af tilfinningum sem urðu til í hruninu.
    Þegar málið er skoðað þá er forsetinn lýðtæðislegast kjörni fulltrúi landsins með meira en 50 % þjóðarinnar á bak við sig.
    Annars aftur kærar þakkir fyrir að hafa fengið að kynnast ykkur.
    Nils Gíslason

    1. Íris Ellenberger

      Sæll Nils og takk fyrir ábendinguna

      Það hefur verið rætt um það að fundum í Öldu að það sé ekki í anda félagsins að leggja til að halda forsetaembættinu óbreyttu. Valddreifing er eitt aðalmarkmið félagsins og því væri í raun eðlilegast að félagið myndi leggja til að embættið yrði lagt niður og verkefnum forsetans dreift á aðrar hendur. Hins vegar ríkir meðvitund um að það þarf einhver að klippa á borða og halda hátíðarræður og því var ákveðið að leggja til að haldið yrði í táknræna hluta embættisins en dreifa öðrum verkefnum á aðra embættismenn og ríkisstarfsmenn. Þessi ákvörðun litast því ekki að hruninu á neinn hátt heldur af almennum markmiðum félagsins. Sama kerfi er notað í Sviss án þess að of miklar forsetaskyldur séu lagðar á herðar þess ráðherra sem gegnir því hverju sinni.

      Vonandi sjáumst við aftur á einhverjum funda félagsins. Málefnahópur um lýðræði á stjórnmálasviðinu tekur aftur til starfa innan skamms.

      Íris Ellenberger

Comments are closed.