Fundargerð stjórnmálahóps, 22. maí 2012.
Mættir voru: Björn (stýrði fundi), Kristinn Már (ritaði fundargerð), Hjalti Hrafn, Guðmundur D. og enskur mannfræðinemi.
1. Uppskera. Rætt um verkefnin sem hópurinn hefur unnið að undanförnu.
Tvö megin verkefni sem voru birt á alda.is nýlega.
Skipulag stjórnmálaflokks. Ítarlegar tillögur voru unnar í hópnum að því hvernig stjórnmálaflokkar í anda alvöru lýðræðis eigi að virka. Áhersla á að ákvarðanir komi frá grasrótinni og draga úr samþjöppun valds á toppnum. Aðferðum beins lýðræðis beitt í skipulaginu, s.s. slembivali og þátttökuferlum. Nú er verið að kynna tillögurnar fyrir stjórnmálaflokkunum og hefur mestur áhugi verið hjá nýrri flokkum. Dögun notaði tillögurnar sem grunn að skipulagi síns flokks, fundir áætlaðir með Samstöðu, Bjartri framtíð og Vinstri-grænum. Beðið eftir staðfestingu frá öðrum flokkum.
Hópurinn vann einnig tillögur að stefnu fyrir stjórnmálaflokka í lýðræðismálum sem var birt nýlega á alda.is. Í þeim eru útlistaðar hugmyndir um breytingum í átt að þátttökulýðræði og bættu fulltrúalýðræði. Hugmyndir um réttindi almennings til þess að færa ákvarðanir í þátttökuferli og um aukna notkun slembivals. Takmarkanir á setu fulltrúa og breytingar á vali á fulltrúum. Mikil áhersla á gagnsæi. Tillögurnar verða kynntar stjórnmálaflokkunum samhliða tillögum um skipan lýðræðislegs stjórnmálaflokks. Alda vinnur að tveimur öðrum sambærilegum tillögum í sjálfbærnimálum og hvað varðar efnahagskerfið sem er að vænta á næstunni. Rætt um mikilvægi þess að koma tillögunum á dagskrá fyrir næstu kosningar. Nokkrar umræður um vonbrigði þess að sjá ekki meiri raunverulegar kerfisbreytingar á dagskrá stjórnmálaflokkanna. „Róttækustu“ hugmyndirnar sem eru á lofti séu í raun ekki róttækar.
2.Real democracy now. Næsta verkefni Öldu sem var í vinnslu er að búa til gagnagrunn yfir lýðræðisleg ferli sem hafa reynst vel og verið rannsökuð. Vefsvæði með upplýsingum í þremur lögum:
a. Almennar upplýsingar um viðkomandi lýðræðisferli (t.d. þátttökufjárhagsáætlunargerð) fyrir almenning. Hvernig virkar ferlið, hvernig tekur maður þátt, reynsla og helstu rannsóknarniðurstöður.
b. Upplýsingar um innleiðingu á tilteknu lýðræðisferli fyrir opinbera aðila/fyrirtæki. Gögn um hvernig sé best að innleiða, reynsla frá þeim sem hafa innleitt. Hvað ber að varast, hvað virkaði vel? Upplýsingar um kostnað. Tæki og tól sem hafa verið búin til og eru aðgengileg. Upplýsingar um þjónustuaðila sem aðstoða við innleiðingar.
c. Safn vísindalegra rannsókna, aðgangur að gögnum um virkni lýðræðislegra ferla og hugsanlega hrágögn fyrir vísindamenn til þess að vinna úr.
Verkefnið fer í vinnslu núna. Unnið er að því að fjármagna verkefnið.
3. Borgarafundir. Alda hefur hafið undirbúning í samstarfi við nokkra einstaklinga sem komu að máli við félagið um að halda borgarafundi/þjóðfundi eins og voru haldnir í kjölfar hrunsins en með öðru sniði. Stefnt að því að halda fundi í haust, hugsanlega í október. Alda tekur að sér að koma með tillögur að skipulagi fundanna. Horft verður til tveggja grunnleiða sem má útfæra með mismunandi hætti:
a. Deliberative polling/random citizen assemblies. Slembivaldir fundir þar sem tekin eru fyrir tiltekin mál. Fundargögn unnin fyrir fund og þátttakendur vinna úr þeim og skila af sér tillögum.
b. Participatory democracy. Opin lýðræðisleg ferli í nokkrum stigum þar sem fyrst eru haldnir opnir fundir þar sem safnað er upplýsingum sem fulltrúar taka og vinna úr á seinni stigum.
Alda mun einnig hafa umsjón með þjálfun þeirra sem munu stýra umræðum á fundinum.
Engar endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar um skipulag og útfærslu en rætt um að hafa nokkur umræðuefni á fundunum, og hafa komið til tals efnahagsmál og lýðræðismál. Einnig kom fram á fundinum áhugi Öldu á því að slíkir fundir verði haldnir úti á landi þótt sá fyrsti verði hugsanlega haldinn í Reykjavík. Of lítið hafi verið haldið af umræðufundum um samfélagsmál í kjölfar hrunsins úti á landi. T.d. í tengslum við vinnu stjórnlagaráðs.
4. Staða mála á stjórnmálasviðinu. Umræða um málþófið og stjórnarskrármálið. Rætt um að umræður á stjórnmálasviðinu séu ekki í anda rökræðu/umræðuslýðræðis heldur leikrit og nakin valdabarátta. Alda telur núverandi ástand varpa skýru ljósi á nauðsyn breytinga á lýðræðinu í anda þess sem Alda hefur lagt til. Lögð verður ályktun fyrir næsta stjórnarfund um það.
Annars staðið við fyrri ályktanir Öldu um stjórnarskrármálið.
- Ályktun um kosningu til stjórnlagaþings í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar (3. febrúar 2011)
- Tillögur til Stjórnlagaráðs (6. apríl 2011)
- Umsögn um tillögur Stjórnlagaráðs (30. maí 2011)
- Í þjóðaratkvæði með tillögurnar! (12. september 2011)
- Umsögn vegna skýrslu Stjórnlagaráðs um tillögur að breytingum á Stjórnarskrá Íslands (1. desember 2011)
- Ályktun: Stjórnarskrármálið (25. apríl 2012)
- Ályktun: 1. maí(1. maí 2012)
5. Önnur mál. Talsverð umræða um fjölmiðla og ágalla þeirra. Of lítil greining og umfjöllun um kerfisvandamál, rangar upplýsingar, reynsluleysi, hagsmunatengsl og fámenni á fjölmiðlum. Skortur á lýðræðislegri stjórn fjölmiðla. Ákveðið að stofna hóp innan Öldu um fjölmiðla ef fást hópstjórar, annars verði verkefnið vistað undir stjórnmálahópnum.
Fundi slitið um 21:10.