Fundur settur klukkan 14:00 þann 7. október 2017 að Múlti-Kúltí að Barónsstíg 3.

Mætt voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Björn Reynir Halldórsson (er stýrði fundi), Kristinn Már Ársælsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir, Helga Kjartansdóttir, Gísli

 

1. Kosning fundarstjóra

Björn Reynir var settur fundarstjóri á fundinum

 

2. Skýrsla stjórnar

Björn Reynir fór yfir það helsta sem félagið stóð fyrir á árinu.

Á starfsárinu var vefsíða félagsins sett upp á ný, á annarri hýsingu en var. Einnig var sett upp annað þema fyrir vefinn, efni endurskipulagt, yfirfarið og bætt eins og frekast var kostur. Liggur þó fyrir að gera þarf meira; betri kynningu þarf á helstu áherslum félagsins, eins og borgaraþingum, slembivali, hugmyndum um skemmri vinnutíma og fleira.

Björn Reynir hélt fyrirlestur um lýðræðisvæðingu á Róttæka Sumarháskólanum í ágúst 2017.

Alda sendi frá sér ályktun vegna Panama-skjalanna, í ljósi þeirrar staðreyndar að íslenskir stjórnmálamenn hafa verið uppvísir af því að vera með aflandsfélög.

Alda sendi frá sér umsögn á starfsárinu, til Alþingis, varðandi frumvarp um Þjóðhagsstofnun, en í umsögninni voru gerðar nokkrar athugasemdir við fyrirliggjandi frumvarp.  Alda sendi einnig inn umsögn til Alþingis varðandi kosningarétt erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi í sveitastjórnarkosningum.

Unnið var að því á starfsárinu að afla félaginu frekara fjár. Unnið var í að afla styrktaraðila, einkum meðal einstaklinga sem hafa áhuga á stjórnmálaumbótum á Íslandi.

Í vinnslu er efni um skemmri vinnutíma, auk þess sem verið er að skoða hvaða árangur hefur verið að styttingu vinnudags hjá Reykjavíkurborg. Einnig verður hugað að því hvernig árangurinn hefur verið hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu, þar sem verkefni er í gangi um skemmri vinnudag.

 

3. Framlagning reikninga

Litlar breytingar urðu á fjárhagsstöðu félagsins á liðnu starfsári. Heildarstaða í lok starfsársins var 26.951 krónur. Á árinu námu tekjur í formi styrkja 10.000 krónum og útgjöldin 795 krónum sem komu til vegna þjónustugjalda.

Á fundinum var fjárhagsstaða félagsins rædd, og ræddar leiðir til að auka tekjur félagsins. Var það samróma álit viðstaddra að það væri heppilegt að auka tekjurnar, með það að markmiði að geta ráðið starfsmann í hlutastarf eða fullt starf. Guðmundur greindi frá árangri við leit að styrkjum, en áhugi er hjá einum aðila að veita félaginu styrk; sá styrkur verður ræddur á næsta stjórnarfundi.

 

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykkt athugasemdalaust.

 

5. Lagabreytingar

Engar tillögur að lagabreytingum voru gerðar, né voru samþykktar lagabreytingar.

 

6. Kosning kjörnefndar

Kjörnefnd var ekki kjörin, þar sem ekki var hlutverk fyrir hana að þessu sinni.

 

7. Kosning stjórnar

Gild framboð bárust frá eftirfarandi aðilum innan gefinna tímamarka skv. lögum félagsins:

  • Bergljót Gunnlaugsdóttir
  • Birgir Smári Ársælsson
  • Björn Reynir Halldórsson
  • Guðmundur Daði Haraldsson
  • Helga Kjartansdóttir
  • Kristinn Már Ársælsson
  • Sólveig Alda Halldórsdóttir

Ofangreind voru öll kjörin í stjórn félagsins fyrir starfsárið 2017-2018.

Samþykkt var að Guðmundur Daði Haraldsson yrði prókúruhafi fyrir hönd félagsins.

 

8. Önnur mál

Í lokin hélt Kristinn Már Ársælsson um korters erindi um slembival á Alþingi, en í kjölfarið sköpuðust umræður um eðli og kosti slembivals. Imprað var á því að búa til þyrfti til efni um slembival á íslensku, þannig að almenningur, stjórnendur fyrirtækja og stjórnmálamenn gætu átt auðveldar með að glöggva sig á slembivali. Einnig var rætt um hvers konar umhverfi slembival býr til innan stofnana þar sem það er tekið upp.

 

9. Boðun næsta stjórnarfundar

Ákveðið var að boða til stjórnarfundar á næsta miðvikudegi klukkan 20:00, til að ræða styrki og hvaða mál félagið ætti að leggja áherslu á, á starfsárinu.

Fundi var slitið klukkan 15:45.