Fundur settur kl. 20:07 þann 19. október 2020. Fundurinn var eingöngu í formi fjarfundar sökum samkomubanns og fjöldatakmarkana vegna yfirstandandi faraldurs kórónuveiru í landinu og um heim allan.

Mætt voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Bára Jóhannesdóttir, Sævar Finnbogason, Kristján Gunnarsson, Þorvarður Bergmann Kjartansson og Guðmundur Hörður Guðmundsson.

1. Kosning fundarstjóra

Guðmundur D. Haraldsson var kjörinn fundarstjóri einróma.

2. Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2019 til 2020

Undanfarið ár hefur stjórn félagsins lagt áherslu á verkefni um samfélagsbanka, vinna að alþjóðlegu samstarfi við erlend félög, og að veita umsagnir um mál sem varða stefnumál félagsins til Alþingis og ráðuneyta.

Í eftirfarandi skýrslu er farið yfir þróun í helstu stefnumálum félagsins sem og starfsemina á árinu.

 

Stjórn félagsins: Ný stjórn tók við 12. október 2019, og komu þá inn í stjórnina þau Snædís Björnsdóttir, nemi í bókmenntafræði og Þorvarður B. Kjartansson, tölvunarfræðingur. Snædís hefur ákveðið að gefa ekki á sér kost á ný fyrir næsta starfsár, en Anna Margrét Pétursdóttir hefur gefið kost á sér í stjórnina. Aðrir stjórnarmenn hafa gefið kost á sér áfram.

Stjórnarfundir: Heldur færri stjórnarfundir voru haldnir þetta starfsár en á fyrra starfsári, en það helgast af bæði heimsfaraldri kórónuveiru sem nú er yfirstandandi og því að stjórnin vinnur meira saman að stefnumálum félagsins í gegnum síma og eftir öðrum leiðum. Má reikna með að áframhald verði á því.

Samfélagsbankar: 

 • Stefna Öldu er og hefur verið að nauðsynlegt sé að settur verði á stofn banki á Íslandi sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni, heldur til þess að rækta samfélagið sem hann er hluti af, með hag almennings og samfélagsins alls að leiðarljósi. Félagið hefur lagt áhersla á að best sé að framtíðarskipan bankakerfisins sé ákveðin á lýðræðislegan hátt, í opnu ferli með beinni aðkomu almennings.
 • Unnið hefur verið að verkefni um samfélagsbanka innan Öldu undanfarið ár. Á síðasta aðalfundi var samþykkt ályktun um nauðsyn lýðræðislegs samráðs um endurskoðun bankakerfisins, t.d. með slembivöldu borgaraþingi, og í framhaldinu var erindi sent til forsætisráðherra, en því erindi hefur ekki verið svarað. Vorið 2020 sendi félagið frá sér fréttatilkynningu um skoðanakönnun sem félagið lét gera varðandi lýðræðislegt ferli í kringum endurskoðun bankakerfisins og að umbreyta Landsbankanum í samfélagsbanka, en góður meirihluti landsmanna er fylgjandi hvoru tveggja — var tilkynningunni vel tekið og vakti allnokkra athygli í fjölmiðlum.
 • Í vor var sótt um styrk frá stéttarfélaginu VR til að setja saman skýrslu um hvers konar lagabreytingar þyrftu að eiga sér stað til að hægt væri að setja á stofn samfélagsbanka á Íslandi, sem og hvers konar stofnanabreytingar þyrftu að eiga sér stað. Styrkurinn var veittur og er skýrsla um málið nú á lokametrunum. Þegar niðurstöður skýrslunnar eru ljósar verða næstu skref ákvörðuð.

Stytting vinnuvikunnar:

 • Árangur náðist í þessu stefnumáli á árinu, þótt smár væri — en árangur er það þó. Næsta árið verður nýtt til að reyna að verja árangurinn eftir því sem þörf krefur, og hvetja til frekari aðgerða eins og hægt er.
 • Öldu hlotnaðist á árinu styrkir frá VR og Eflingu til að hægt væri að halda ráðstefnu um styttingu vinnuvikunnar í Brussel, en vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar var fundarforminu breytt og verður ráðstefnan núna eingöngu rafræn. Ráðstefnan er haldin á vegum The European Network for the Fair Sharing of Working Time og verður fulltrúi Öldu meðal annars með erindi á ráðstefnunni. Styrkirnir eru sum sé í höfn og verða þeir nýttir til að halda ráðstefnuna, en verði afgangur verður styrkfénu varið í þágu The European Network, m.a. til að gefa út fréttabréf og setja upp vef fyrir netið. Meira um þetta í fundargerð, hér.
 • Í lok árs 2019 hófst vinna við að setja saman skýrslu um árangurinn af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar á Íslandi, tilraunaverkefnum sem ríkið, Reykjavíkurborg og BSRB stóðu að. Skýrslan er unnin í samstarfi við BSRB og Autonomy, og er skrifuð af fulltrúa Öldu. Skrif á skýrslunni eru langt komin og verður hún vonandi gefin út á næstu mánuðum. Verkefnið hefur tafist m.a. vegna þess að einn samstarfsaðilinn, Autonomy, þurfti að vinna að öðrum vekefnum vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar, auk þess sem ólíklegt þótti að erlendir aðilar (fjölmiðlar, stjórnmálamenn) hafi áhuga á skýrslu um tilraunaverkefni sem þessa í upphafi faraldursins — athygli fólks var hreinlega á öðrum málum og er á margan hátt enn.

Samstarfsverkefni um mannréttindi og hlutverk félagasamtaka:

 • Alda er/var meðlimur í samstarfsverkefni um mannréttindi og hlutverk félagasamtaka. Er verkefnið á vegum samtaka í Póllandi, Finnlandi og Hvíta-Rússlandi. Alda hefði látið sjá um að láta vinna verkefnið ef af hefði orðið, og láta skrifa skýrslu um niðurstöðurnar, en styrkur sem sótt var um til Norrænu ráðherranefndarinnar fékkst ekki. Meira aðdraganda verkefnisins í fundargerð, hér.
 • Alda hefur einnig tekið þátt í umsókn um Evrópustyrk til þess að vinna með pólsku samtökunum að verkefni sem snýr að gegnsæi og siðareglum fyrir frjáls félagasamtök. Verkefnið myndi kalla á fundarhöld og skýrslugerð hér á Íslandi sem Alda héldi utan um. Umsóknin hefur farið í gegnum niðurskurð og á því allgóða möguleika á að hljóta styrk.

Umsagnir og fundir með Alþingi:

 • Félagið sendi inn allnokkrar umsagnir um lagafrumvörp á liðnu starfsári.
 • Í nóvember 2019 sendi Alda inn umsögn um frumvarp um ráðherraábyrgð (sjá hér). Frumvarpið gerir það saknæmt að ráðherra segi Alþingi viljandi ósatt. Alda veitti jákvæða umsögn um málið. Í maí 2020 var fulltrúi Öldu til svara á fundi hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um umsögnina. Á fundinum var frumvarpið sjálft reifað sem og umsögnin sem Alda sendi (sjá fundargerð hér).
 • Alda sendi umsögn til Alþingis í nóvember 2019 um frumvarp um breytingu á sveitastjórnarlögum. Alda gerir athugasemdir við frumvarpið. Umsögnina má finna í heild sinni hér.
 • Alda sendi í nóvember 2019 umsögn til Alþingis um þingsályktunartillögu um grænan samfélagssáttmála. Alda telur málið jákvætt, en leggur til nokkrar breytingar. Umsögnina má finna í heild sinni hér.
 • Í nóvember 2019 sendi Alda umsögn til Alþingis um frumvarp um fjölgun frídaga. Umsögn Öldu var jákvæð, enda er markmiðið að veita vinnandi fólki aukið tækifæri til að njóta frístunda. Umsögnina sem send var til Alþingis má finna hér.
 • Í desember 2019 sátu fulltrúar Öldu fund með Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem rætt var frumvarp sem opnar á upplýsingagjöf til almennings um starfsemi Alþingis. Alda sendi í framhaldi af fundinum umsögn til Alþingis um lagabreytingartillöguna. Ýmsar athugasemdir eru gerðar við frumvarpið, en það þó talið skref í rétta átt. Umsögnina má finna hér.
 • Í desember 2019 sendi Alda til Alþingis umsögn um lagabreytingu um ársreikningaskrá, sem myndi gera það að verkum að skráin yrði opin án endurgjalds. Félagið tekur undir tillöguna, enda eykur hún gagnsæi í samfélaginu og um hag fyrirtækja. Umsögnina má finna hér og lagabreytingatillöguna má finna hér.
 • Alda sendi í janúar 2020 umsögn til Alþingis um lagafrumvarp sem myndi breyta því hvernig ráðuneytisstjórar og sendiherrar eru skipaðir, en með lagabreytingunni myndi verða meira gagnsæi um hvernig skipað yrði í slíkar stöður. Alda styður málið og eru í umsögninni færð rök fyrir afstöðu félagsins. Umsögnina má finna hér. Lagabreytingatillöguna má finna hér.
 • Alda sendi í janúar 2020 til Alþingis umsögn um þingsályktunartillögu um fullgildingu sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum. Umsögnina má finna hér og þingsályktunartillöguna hér. Alda lýsir yfir stuðningi við tillöguna.
 • Alda sendi í mars 2020 til Alþingis umsögn um lagafrumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Félagið veitti jákvæða umsögn og telur að  þurfi að samþykkja sem fyrst, enda kjarnorkuvopn hætta fyrir lífið á jörðinni og sjálft lýðræðið. Félagið gerði einnig alvarlegar athugasemdir við umsögn Utanríkisráðuneytis Íslands. Frumvarpið má finna hér og umsögnina hér.
 • Í mars 2020 sendi Alda til Alþingis umsögn til Alþingis um breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Umsögnin er jákvæð í garð þrepaskiptingar, en bent er á að þrepin þurfi að vera fleiri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Einnig er bent á að máli skiptir hvernig erfðafjárskatturinn er reiknaður. Umsögnina má finna hér og lagafrumvarpið hér.
 • Alda sendi í mars 2020 umsögn í Samráðsgátt ríkisins um lagabreytingu um ársreikningaskrá, sem myndi gera það að verkum að skráin yrði opin án endurgjalds. Félagið tekur undir tillöguna, enda eykur hún gagnsæi í samfélaginu og um hag fyrirtækja. Umsögnina má finna hér og lagabreytingatillöguna má finna hér. Félagið hefur áður sent inn umsögn um svipað mál, sjá hér.
 • Í apríl 2020 sendi Alda til Alþingis umsögn um þingsályktunartillögu um stofnun starfshóps sem vinnur að útfærslum á takmörkunum á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Umsögn Öldu var jákvæð. Þingsályktunartillögunina má finna hér og umsögnina hér.
 • Í apríl 2020 sendi Alda til Alþingis umsögn um þingsályktunartillögu um nauðsyn löggjafar um lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðunum. Alda tekur í umsögn sinni undir að auka þurfi lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðunum og bendir á að fulltrúar fjármagns- og fyrirtækjaeigenda eigi ekki að eiga sæti í stjórnum lífeyrissjóða. Þingsályktunartillöguna má finna hér og umsögnina má finna hér.
 • Í júlí 2020 sendi félagið sendi inn umsögn um frumvarp um breytingar á embætti forseta á Íslands og ríkisstjórn (mál nr. 124/2020 í samráðsgátt stjórnvalda). Félagið gerir ýmsar athugasemdir við frumvarpið, leggur til fjölda breytinga, leggur til ýmiss konar viðbætur við stjórnarskrána og leggur áherslu á að stjórnarskrá landsins skuli unnin af almenningi í víðtæku ferli. Umsögn Öldu má finna hér.

Fundur með Feneyjanefndinni um frumvörp forsætisráðherra um breytingar á stjórnskipunarlögum:

 • Í október 2020 sat Sævar Finnbogason fund Feneyjanefndarinnar fyrir hönd Öldu þar sem nefndin ræddi við fulltrúa félagasamtaka á Íslandi varðandi frumvörp forsætisráðherra  til breytingar á stjórnskipunarlögum. Sævar gerði grein fyrir afstöðu Öldu eins og hún kom fram í þeim álitum sem félagið hefur skilað inn, að svo miklu leyti sem hægt var að koma henni að á fundinum, sem var heldur ómarkviss, ef markmið hans var að fá fram efnislegar athugasemdir við frumvörpin sem slík. Í kjölfar fundarins sendi Sævar að ósk nefndarinnar henni álitsgerðir félagsins.

3. Framlagning reikninga fyrir starfsárið 2019 til 2020

Neðangreindir reikningar miðast við 11. október 2019 til 18. október 2020.

Staða fyrir: 442.366

                               Tekjur                         Gjöld
Styrkir frá einstaklingum                                   13.200
Styrkir frá öðrum félögum                                   771.000
Vextir                                                       4.345

Bankakostnaður                                                                            -55
Fjármagnstekjuskattur                                                                     -955
Kostnaður vegna léns (þrjú ár)                                                           -17.940
Kostnaður vegna verkefnis um styttingu vinnuvikunnar                                      -74.635 1)
Styrkur veittur öðrum félagasamtökum                                                      -15.000 2)
Kostnaður vegna samfélagsbankaverkefnis                                                    -187.488 3)
Ýmislegt                                                                                  -910

Samtals                                                     788.545                        -296.983

Allar fjárhæðir eru í ISK

Hagnaður var af rekstri félagsins á tímabilinu, upp á 491.562. Hafa ber í huga að félagið er þegar skuldbundið til greiða verktökum fyrir verkefni sem eru í vinnslu en er enn ekki lokið, og afgangurinn segir því ekki til um aukið ráðstöfunarfé Öldu.

Staða eftir: 933.928

Skýringar:

 1. Um er að ræða auglýsingar og kostnað við ferð á ráðstefnu í Brussel
 2. Um er að ræða styrk vegna málþings í ráðhúsi Reykjavíkur í febrúar 2020 undir yfirskriftinni  „Það sem sameinar okkur á leið til betra samfélags fyrir alla.“
 3. Um er að ræða skoðanakönnun sem var gerð fyrir Öldu

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Fundarmenn spurðu út í einstaka liði skýrslunnar og stungu upp á viðbótum, hefur þeim verið skeytt inn eftir því sem við á.

Ofangreind skýrsla stjórnarinnar og framlagðir reikningar voru samþykkt einróma.

5. Lagabreytingatillögur

Eftirfarandi tillaga að lagabreytingu hefur borist frá Guðmundi D. Haraldssyni, stjórnarmanni í Öldu:

Síðasta setning síðustu málsgreinar 5. gr. hljómi svo:

Framboð til stjórnar skulu berast stjórn félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynnt á vefsvæði félagsins a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund.

En þetta kemur í stað:

Framboð til stjórnar skulu berast stjórn félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynnt á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund.

Markmiðið er að færa lög félagsins í átt að því sem gengur og gerist meðal annarra félagasamtaka.

Með þessu yrði þó áfram boðað til aðalfundar eins og verið hefur, með tölvupósti til allra félagsmanna, en kveðið er á um það í 4. gr.

Var tillagan samþykkt einróma á fundinum.

Engar frekari tillögur bárust.

6. Kosning kjörnefndar

Ekki var þörf á kjörnefnd að þessu sinni þar sem framboð til stjórnar voru jafnmörg og áskilinn fjöldi stjórnarmanna.

7. Kosning stjórnar

Eftirfarandi höfðu boðið sig fram til stjórnar Öldu fyrir næsta starfsár:

 • Anna Margrét Pétursdóttir, BA í stjórnmálafræði, MSc nemi í Politics of Conflict, Rights and Justice við School of African and Oriental Studies, Lundúnum.
 • Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki og lýðræðisfræðum
 • Kristján Gunnarsson, sameindalíffræðingur og tölvunarfræðingur
 • Guðmundur D. Haraldsson, MSc í Cognitive & Decision Sciences, BS í sálfræði
 • Bára Jóhannesdóttir, MA félagsfræði, BA nútímafræði
 • Guðmundur Hörður Guðmundsson, umhverfisfræðingur og sagnfræðingur
 • Þorvarður B. Kjartansson, tölvunarfræðingur

8. Önnur mál

Rætt var um að halda mánaðarlega vinnufundi stjórnarinnar, þann fyrsta 26. nóvember næstkomandi og var það samþykkt.

Var og rætt um endurbætur á vefnum, svo sem um að setja upp annað þema og fara yfir efni hans, verður stefnt að þessu á næstu vinnufundum stjórnarinnar.