Árið 2012 var viðburðarríkt hjá Öldu. Félagið veitti fjölda umsagna um þingmál, þar á meðal um þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO. Sendi frá sér tillögur, m.a. um lýðræðisleg fyrirtæki sem nú liggur fyrir Alþingi. Einn af hápunktum ársins var ráðstefna um lýðræði þar sem á vegum félagsins komu þær Melissa Mark-Viverito, borgarfulltrúi í NY og Donata Secondo, starfsmaður The Participatory Budgeting Project.

Árið hófst á stjórnarfundi strax þann 3. janúar 2012.

Laugardaginn 21. janúar var haldinn kynningarfundur í Grasrótarmiðstöðinni – Lýðræði er lykillinn – þar sem kynntar voru tillögur Öldu að skipulagi stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Það voru Guðmundur D. Haraldsson og Kristinn Már Ársælsson sem kynntu. Fundurinn var vel sóttur og urðu góðar umræður.

Félagið sendi frá sér ályktun í byrjun árs um ný sveitarstjórnarlög sem tóku gildi um áramótin. Í henni var fagnað þeim hænuskrefum sem tekin voru í átt að alvöru lýðræði.

Alda heimsótti Heimdall þann 9. febrúar þar sem rætt var um lýðræðismál. Fundurinn var haldinn í Valhöll og fóru Hjalti Hrafn og Halldóra Ísleifsdóttir fyrir félagið.

Alþingi óskaði umsagnar félagsins um þingsályktunartillögu hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO. Alda fagnaði tillögunni og bíður þess spennt að atkvæðagreiðslan verði haldin.

Málefnahópur um skilyrðislausa grunnframfærslu tók til starfa á árinu. Hjalti Hrafn hélt námskeið í róttæka sumarháskólanum um sama efni.

Alda sendi frá sér ályktun um stjórnarskrármálið í apríl, eftir átök og vandræðagang stjórnmála-elítunnar. Lokaorð ályktunarinnar voru að: Sem stendur er ferlið lítið annað en sýnidæmi um það hversu lítið og veikburða lýðræðið er í samfélagi okkar.

Á stjórnarfundi sem haldinn var á baráttudegi verkalýðs, 1. maí 2012, var samþykkt ályktun þar sem litið var til þróunar mála frá hruni.

Alda tók þátt í áhugaverðri ráðstefnu um lýðræði sem haldin var við Háskóla Íslands í maí. Þar var rætt um ýmis form þátttökulýðræðis og var meðal fyrirlesara James S. Fishkin, einn fremsti fræðimaður í heimi á sviði slembivals og þátttökulýðræðis. Kristinn Már tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni fyrir hönd Öldu.

Félagið vann tillögur að stefnu fyrir stjórnmálaflokka í lýðræðismálum. Vonandi verða sem flestir stjórnmálaflokkar með þá stefnu í komandi kosningum á árinu 2013.

Stjórnmálaástandið hefur verið bágborið undanfarið og aðeins um 10% landsmanna sem treysta Alþingi. Félagið sendi frá sér ályktun um ástandið í júní, þar sem kallað var tafarlausum umbótum og endurnýjun á lýðræðinu.

Alda sendi frá sér ályktun um fjölmiðla í júní. Alda minnti á að ekki hafi farið fram endurskoðun og umbætur á fjölmiðlum hérlendis í kjölfar hrunsins þrátt fyrir að t.d. fjölmiðlafræðingar og höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis hafi bent á að þeir hafi brugðist skyldum sínum.

Félagið tók saman tillögu til þingsályktunar um lýðræðisleg fyrirtæki í júní. 2012 var ár samvinnufyrirtækja hjá Sameinuðu þjóðunum og þótti félaginu rétt að unninn verði nýr lagarammi fyrir lýðræðisleg fyrirtæki. Til þess að hægt sé að tala um alvöru lýðræði þurfa leikreglur lýðræðisins að gilda á öllum sviðum samfélagsins, líka í vinnunni. Þingsályktunin var lögð fyrir Alþingi undir lok árs en hefur ekki komið til afgreiðslu.

Í aðdraganda forsetakosninganna sendi Alda frá sér hvatningu þess efnis að forsetaembættið yrði lagt niður. Enda embættið í raun arfur frá eldri samfélagsgerð sem engin ástæða er til að draga lengra inn í framtíðina.

Í júlí sendi Alda frá sér tillögur um styttingu vinnudagsins sem unnar voru í málefnahópi um sama efni. Tillögurnar voru sendar stéttarfélögum, samtökum atvinnulífs og öðrum sem koma að kjara- og vinnutímamálum. Í kjölfarið fóru félagsmenn og hittu forsvarsmenn ýmissa félaga og hafa unnið að því koma málinu í framkvæmd.

Aðalfundur félagsins, Aldamót, var haldinn í september. Á honum var valin ný stjórn að undanskildum tveimur stjórnarmönnum sem voru nokkru síðar slembivaldir. Lögð var fram á fundinum skýrsla fráfarandi stjórnar.

Haldinn var borgarafundur í Iðnó um nýju stjórnarskránna og beint lýðræði undir lok september og var Sólveig Alda Halldórsdóttir fyrir Öldu.

Í kjölfar erinda sem stjórnarmenn héldu á starfsdegi stjórnenda leikskóla fóru Hjalti Hrafn og Birgir Smári á nokkra leikskóla og kynntu hugmyndir félagsins í menntamálum.

Félagið sendi frá sér ályktun um loftslagsmál í byrjun október í tilefni þess að þá hafi aðeins verið 50 mánuðir þar til styrkleiki gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti jarðar fer yfir þau mörk þannig að ólíklegt sé að hægt verði að koma í veg fyrir veruleg áhrif loftslagsbreytinga.

Nokkur umræða varð um stofnun Þjóðhagsstofnunar í byrjun október og sendi félagið frá sér ályktun af því tilefni. Hvatningin var send til forsætisráðherra og forseta þingsins en engin viðbrögð hafa enn fengist.

Málefni Orkuveitu Reykjavíkur voru í hámæli í kjölfar skýrslu um veituna. Alda lagði til í kjölfarið að fyrirtækið skyldi lýðræðisvætt.

Óskað var umsagnar félagsins um þingmál hvað varðar fjármál stjórnmálaflokka.

Alda hvatti fólk til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs.

Ársþing ASÍ var haldið síðla árs og fjallað þar um kjaramál. Öldu þótti verulega miður að engar ályktanir komu frá þinginu um styttingu vinnutíma.

Alda veitti umsögn um frumvarp að nýjum upplýsingalögum í nóvember. Björn Þorseinsson og Kristinn Már fóru fyrir þingnefnd og kynntu umsögina.

Félagið sendi Alþingi umsögn vegna breytinga á lögum um RÚV. Þar lagði félagið til að stofnunin yrði lýðræðisvædd.

Alda tók þátt í ráðstefnu um lýðræði í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og umboðsmann barna. Til landsins komu á vegum Öldu þær Melissa Mark-Viverito, borgarfulltrúi í NY og Donata Secondo, starfsmaður The Participatory Budgeting ProjectRáðstefnan heppnaðist einstaklega vel. Þær Melissa og Donata voru síðar í viðtali í Silfri Egils.

Kristinn Már Ársælsson var í viðtali í Silfri Egils um störf félagsins.

Félagið veitti umsögn um framkomið frumvarp um stjórnskipunarlög.

Lagt var fram á Alþingi frumvarp um færslu frídaga á Alþingi og óskað umsagnar Öldu. Félagið veitti umsögn þar sem m.a. var lagt til að frídögum yrði fjölgað og vinnuvikan stytt fyrst ráðist er í breytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku.

Greinar á árinu